top of page

Portúgalska leiðin

Árið 2001 varð Portúgal fyrsta Evrópuríkið til þess að afnema allar refsingar við fíkniefnanotkun. Þetta gilti fyrir öll efni, þar með talin harðari efni eins og heróín, kókaín og amfetamín. Breytingin hafði í för með sér að meðferð og hjálparúrræði komu í stað fangelsisvistar. Vegna hræðslu við fangelsisvist halda fíklar sig gjarnan neðanjarðar, ef svo má að orði komast. Með þessari breytingu hvarf sú hræðsla og til varð hvatning til þess að koma upp á yfirborðið. Einstaklingur má eiga birgðir af efnunum til 10 daga neyslu. Ef upp kemst að hann eigi meira, bjóðast honum önnur úrræði en við eigum að venjast hér á landi. Það felur í sér að brotlegir fá sál- og lögfræðihjálp og ráðgjöf félagsráðgjafa . Það var því fagnaðarefni fyrir fylgjendur stefnunnar þegar að Cato stofnunin birti skýrslu í apríl 2009 um reynsluna af lagabreytingunni. Í skýrslunni kemur fram að fimm árum eftir að refsingar voru afnumdar hefur fíkniefnanotkun unglinga minnkað, HIV-smit eru færri og fjöldi þeirra sem sækir meðferð hefur tvöfaldast. Þá kemur einnig fram að með breytingunni hefur portúgölsku ríkisstjórninni tekist að stjórna fíkniefnavandanum betur en annars staðar á Vesturlöndum.

 

Af aðildarríkjum Evrópusambandsins er Portúgal nú með lægstu heildarnotkun (en þá er einnig átt við þá sem hafa prófað einu sinni) kannabis. Þessar niðurstöður eru sláandi og ekki verður um það villst að árangurinn er raunverulegur. Nú þegar hafa Spánverjar og Ítalir hafið umræðu að fara sömu leið. Í Sviss hafa einnig verið blikur á lofti um að mýkja eiturlyfjalöggjöfina. Þó ber að nefna að þessar breytingar snúa eingöngu að notandanum sjálfum. Enn er ólöglegt að selja lyfin, smygla þeim og þess háttar.

bottom of page